Erlent

Um 100.000 sagt að rýma svæði á Rafah vegna „af­markaðra að­gerða“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelsher er í viðbragðsstöðu við landamærin.
Ísraelsher er í viðbragðsstöðu við landamærin. AP/Tsafrir Abayov

Ísraelsher segist þurfa að flytja 100.000 manns frá Rafah inn á nærliggjandi svæði, al Mawasi, sem Ísraelsmenn hafa skilgreint sem „mannúðarsvæði“. Þetta hefur Associated Press eftir talsmanni hersins.

Nadav Shoshani sagði í samtali við miðilinn að fólkinu hefði verið fyrirskipað að yfirgefa Rafah. Ísraelsher væri að undirbúa „afmarkaða aðgerð“ en hann vildi ekki gefa upp hvort um væri að ræða fyrsta skrefið í áhlaupi á borgina.

Þrír hermenn Ísrael létust í loftárásum Hamas um helgina, sem voru gerðar frá svæðinu sem á að rýma.

Að sögn Shoshani hefur kort verið gefið út af svæðinu og skilaboðum komið á framfæri í gegnum útvarp, smáskilaboð og einblöðunga sem hefur verið dreift úr lofti.

Þá segir hann neyðaraðstoð í al-Mawasi hafa verið aukna; sjúkrahús opnuð, tjöld sett upp og aðgengi aukið að vatni og matvælum.

Svo virðist sem ákveðin pattstaða sé komin upp í vopnhlésviðræðum Ísraela og Hamas en Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir ekki koma til greina að láta af aðgerðum á Gasa fyrr en markmiðum sé náð.

Það sé enn fyrirætlun Ísraelmanna að ráðast inn í Rafah til að útrýma þeim bardagasveitum sem þar hafast við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×